Hagnýtar upplýsingar fyrir söluferlið.
Undirbúningur fyrir sölu eignar
Það er augljós tenging milli þess hvernig fasteign hefur verið undirbúin fyrir ljósmyndatöku og lokaútkomu á myndunum. Því er ákaflega mikilvægt að fylgja leiðbeiningunum eins vel og unnt er. Mundu að þetta eru myndirnar sem eiga að skapa áhuga hjá mögulegum kaupendum og myndir segja meira en mörg orð. Myndirnar geta jafnvel skipt sköpum um hvort fólk leggi leið sína til þess að skoða eignina.
Almennt
Almennt er mjög mikilvægt að hafa hreint í öllum herbergjum. Herbergi sem er fullt af allskyns smáhlutum virðist minna en það er í raun og veru.
Útimyndir og garður
Fjarlægið hjól, skíði, garðáhöld og annað í þeim dúr úr augsýn.
Ef garðhúsgögn eru til staðar, þurrkið þá af þeim snjó og/eða mestu óhreinindin ef þau hafa staðið úti lengi.
Reynið að hafa garðinn nýsleginn og snyrtilegan.
Mokið snjó af svölum, göngustígum og öðru sem þið viljið að sjáist í myndatökunni.
Stofur
Fjarlægið allar fjarstýringar.
Hristið upp púða í sófum og stólum og ekki hafa of mikið af skrautpúðum.
Ef arinn er til staðar er rétt að gera hann tilbúinn til íkveikju.
Kerti geta gert eignir ákaflega fallegar allt er þó gott í hófi.
Eldhús
Fjarlægið vélar og annað af borðum ásamt því að reyna að ganga frá snúrum og slíku. Reynið að hafa sem allra minnst á eldhúsinnréttingunni.
Hafið ekki uppþvott í vaski eða á borðum né uppþvottalög eða grindur.
Gerið alla borðfleti eins hreina og mögulegt er.
Fjarlægið allt sem hangir á kæliskápshurðinni.
Poka með flöskum og rusli er ekki gott að hafa í mynd.
Karfa með ferskum ávöxtum tekur sig venjulega vel út í eldhúsi.
Baðherbergi
Takið persónulega muni eins og hársápu og hárnæringu, krem, ilmvötn, sápur, tannbursta o.þ.h. úr augsýn (t.d. á vaski, í sýnilegum hillum/skápum og sturtu).
Fjarlægið notuð handklæði og sloppa og setjið hrein í staðinn. Athugið að það getur verið mjög smekklegt að hafa samstæð, ljós handklæði hangandi á snögunum.
Takið óhreinatauskörfur.
Svefnherbergi
Búið um rúmin og notið helst einlit rúmteppi eða sængurföt.
Fjarlægið föt og annað úr augsýn.
Takið allt dót (nema lampa) af náttborðum.
Hafið barnaherbergi snyrtileg.